Birgir Leifur Hafþórsson ætlar að byrja keppnistímabilið á Evrópumótaröðinni með sama hætti og í fyrra en hann mun leika á tveimur mótum í Suður-Afríku í desember. Birgir endaði í 11.-15. sæti á lokaúrtökumótinu sem lauk í gær á Spáni og tryggði hann sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni með þeim árangri. Hann hefur fengið um 650.000 kr. í verðlaunafé á síðustu tveimur úrtökumótum en hann sigraði á einum af fjórum keppnisvöllum á 2. stigi úrtökumótsins og þar fékk hann um 200.000 kr. í verðlaunafé og hann fékk rúmlega 450.000 kr. fyrir árangurinn á lokaúrtökumótinu.
Fyrsta mót keppnistímabilsins hjá Birgi verður á Alfred Dunhill-meistaramótinu sem fram fer Leopard Creek golfvellinum 6.-9. desember.
Þann 13. desember hefst South African Airways meistaramótið á Pearl Valley-golfvellinum og verður Birgir með á því móti – líkt og í fyrra. Hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Alfred Dunhill meistaramótinu í fyrra þar sem hann lék á 77 og 75 höggum -eða 8 höggum yfir pari.
Á South African Airways meistaramótinu endaði Birgir í 82. sæti en þar lék hann samtals á pari vallar.