Draumahringur og vallarmet hjá Birgi á Spáni

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. mbl.is

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, gerði sér lítið fyrir og bætti vallarmet á Lariserva golfvellinum á Spáni um 6 högg. Birgir lék á 11 höggum undir pari á Kaupþings-mótinu sem fram fór á vellinum í dag. Birgir, sem tryggði sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni s.l. þriðjudag, var í gríðarlegum ham í dag en hann hitti allar 18 flatir vallarins í tilætluðum höggafjölda.

„Ég kom sjálfum mér á óvart enda var þetta mjög afslappað allt saman. Við lékum af gulu teigunum sem eru um 6,100 metra að lengd en af öftustu teigum er völlurinn 6,700 metrar og þá erum við að tala um alvöru áskorun. Þessi völlur verður notaður á spænska áhugameistaramótinu á næsta ári og er því á meðal þeirra stóru hér á Spáni,“ sagði Birgir við mbl.is í kvöld en hann hefur aldrei áður leikið á 11 höggum undir pari.

„Ég lék á 61 höggi í dag og fékk 11 fugla. Þetta er persónulegt met en ég hef leikið á 61 höggi áður en það var á meistaramóti GKG en þar var parið 70 og lék því á 9 höggum undir pari á þeim hring. Það er skrýtið að upplifa svona dag þar sem nánast allt gengur upp. Ég sló alltaf með dræver af teig á par 4 og par 5 brautunum enda létt yfir þessu móti og ég tek þessu mátulega alvarlega. Kannski þarf ég að gera þetta oftar, “ sagði Birgir.

Hann mun leika á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni í desember líkt og hann gerði í fyrra en Birgir hefur hug á því að fara tvívegis til Suður-Afríku á næstu tveimur mánuðum.

„Ég get komist inn á mót sem er í Suður-Afríku um miðjan janúar - ég sleppti því móti í fyrra en ég hef áhuga á því að fara á það mót núna. Framhaldið er nokkuð óljóst þegar kemur fram í janúar, febrúar og mars á næsta ári. Það eru nokkur mót á Persaflóasvæðinu sem ég hef ekki hugmynd um hvort ég kemst á en þau eru í janúar og febrúar. Um miðjan febrúar færist mótaröðin yfir til Asíu og þá eru mót í Kína, Indónesíu, Indlandi, Malasíu og Suður-Kóreu sem standa mér til boða. Það eru gríðarleg ferðalög framundan en ég hlakka bara til að takast á við þetta verkefni,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson.

Mótadagskrá Evrópumótaraðarinnar 2007-2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert