Kylfingurinn Tiger Woods hefur á undanförnum árum verið tekjuhæsti íþróttamaður heims en hinn 31 árs gamli Bandaríkjamaður hefur ákveðið að byggja sér heimili í Flórída. Woods og sænska eiginkona hans, Elin, eiga eina dóttur og Woods fer ekki auðveldu leiðina til þess að byggja „draumahús“ fjölskyldunnar.
Fyrir tveimur árum keypti Tiger Woods húseign við sjávarlóð í Flórída og er talið að hann hafi greitt um 2,9 milljarða kr. fyrir eignina. Woods var greinilega ekki sáttur við húsið sem stóð á landareigninni og hafa verktakar unnið að því að rífa húsið - og verður ný bygging reist á sama stað. Húsið sem var rifið var aðeins 13 ára gamalt og í hæsta gæðaflokki.
Að auki voru þrjú önnur minni hús fjarlægð. Jarðýturnar voru einnig notaðar til þess að moka yfir tvær sundlaugar, körfubolta -, tennis- og blakvelli og mini-golfvöll.
Tiger og Elin hafa lagt fram teikningar þar sem að gert er ráð fyrir tveggja hæða húsi á landareigninni og verður heildarflatarmálið um 1000 fermetrar. Einnig verða þrjú gestahús reist við aðalbygginguna, bátahús, líkamsræktarhús og risastór bílageymsla. Í kjallara aðalbyggingarinnar verður víngeymsla í hæsta gæðaflokki, kvikmynda - og leiktækjasalur.
Fyrir utan húsin verður tennisvöllur, sundlaug og lítill golfvöllur. Woods á snekkju, sem er ekkert smáfley, en Privacy er um 50 metrar að lengd og er talið að skipið hafi kostað um 1,3 milljarða kr.
Woods er eins og áður segir tekjuhæsti íþróttamaður heims og námu tekjur hans á síðasta ári um 6 milljörðum kr. Talið er að kostnaðurinn við nýja heimilið verði um 1,5 milljarðar kr., sem þykir ekki há upphæð fyrir mann á borð við Woods, en hann ætlar sér að flytja inn í nýja húsið eftir 18 mánuði.
Margar þekktar stjörnur búa í næsta nágrenni við Woods og má þar nefna söngkonuna Celine Dion.
Woods á heimili þremur stöðum í Bandaríkjunum, Orlando, Kaliforníu og Wyoming. Að auki á hann eign í Stokkhólmi í Svíþjóð.