Sænski kylfingurinn Henrik Stenson lék óvenjulegan æfingahring á Torrey Pines-vellinum en þar verður Opna bandaríska meistaramótið haldið á næsta ári. Eitt mót á PGA-mótaröðinni fer fram á Torrey Pines áður en Opna bandaríska meistaramótið hefst en Stenson getur ekki tekið þátt á því móti vegna verkefna á Evrópumótaröðinni.
Stenson tók þátt í Target World - góðgerðarmótinu á dögunum og eftir að því móti lauk pantaði hann sér rástíma á Torrey Pines vellinum til þess að kanna aðstæður. Hann þurfti m.a. að greiða vallargjald eins og allir aðrir. Þegar Stenson mætti til San Diego var búið að setja hann og félaga hans í ráshóp með hjónum sem höfðu nýlega byrjað að leika golf. Og nafn konunnar var kunnuglegt, Pamela Anderson.
„Þetta var ekki leikkonan Pamela Anderson,“ segir Stenson í viðtali við AP-fréttastofuna.
„Við getum orðað það þannig að þessi æfingahringur hafi verið áhugaverður,“ bætti Stenson við en hann hefur ekki greitt vallargjald í Bandaríkjunum í mörg ár - enda atvinnumaður í fremstu röð í heiminum.
„Ég greiddi einnig fyrir fötu af æfingaboltum á æfingasvæðinu. Þetta er í fyrsta sinn í mörg ár þar sem ég slæ bolta með svartri rák. Boltaflugið var mjög sérstakt. Mér fannst eins og að boltarnir færu ekki á flug og ég áttaði mig á því að höggin hjá mér voru í lagi en boltarnir ekki,“ sagði Stenson.