Kelly Tilghman, einn af aðalfréttamönnum á sjónvarpsstöðinni Golf Channel, var í gær send í tveggja vikna frí vegna niðrandi ummæla hennar um bandaríska kylfinginn Tiger Woods.
Tilghman sagði í beinni útsendingu að keppinautar Woods á PGA-mótaröðinni ættu aðeins eitt úrræði til þess hafa betur í keppni gegn honum. Lausnin sem Tilghman benti á var að hengja Woods í næsta húsasundi.
Enski kylfingurinn Nick Faldo var með Tilghman í útsendingunni þegar hún lét þessi orð falla og átti þetta greinilega að vera brandari hjá Tilghman -sem heppnaðist ekki betur en þetta.
Forráðamenn Golf Channel hafa beðið Tiger Woods opinberlega afsökunar á þessum orðum hennar.
Tilghman hefur sjálf beðið Tiger Woods afsökunar og segir Mark Steinberg umboðsmaður Woods að kylfingurinn hafi ekki tekið þessi orð hennar nærri sér. Og ætlar Woods ekki að leggja fram kæru vegna meiðyrða.