DiMarco með rassinn út í loftið

Chris DiMarco.
Chris DiMarco. Reuters

Greame McDowell frá Norður –Írlandi er efstur þegar keppni er hálfnuð á Ballantines meistaramótinu í golfi sem fram fer í Suður-Kóreu. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og er McDowell á 12 höggum undir pari samtals en hann lék á 64 höggum í dag eða 8 höggum undir pari.

Staðan

Paul McGinley frá Írlandi og Suður-Kóreumaðurinn Kim Hyung-Tae eru næstir í röðinni á 10 höggum undir pari vallar. McDowell sagði að hann hefði notið góðs af því að veðrið lagaðist þegar á leið daginn en hann var á meðal þeirra sem hófu leik eftir hádegi. Fyrri part dags var mikið rok og skor keppenda var í takt við veðrið. Padraig Harrington frá Írlandi sem sigraði á Opna breska meistaramótinu á síðasta ári lék á 65 höggum í dag og er hann fjórum höggum á eftir efsta manni. Flestir áhorfendur halda með KJ Choi á þessu móti en hann er þekktasti kylfingur Suður-Kóreu og hefur náð góðum árangri á PGA-mótaröðinni. Hann hefur ekki náð sér á strik í heimalandinu og er hann átta höggum á eftir McDowell. „Ég næ ekki að setja boltann ofaní holuna úr þeim færum sem ég hef fengið. Ég á samt möguleika því ég er að leika vel en púttin þurfa að fara ofaní,“ sagði Choi eftir hringinn í dag.

Chris DiMarco frá Bandaríkjunum notaði tækifærið og tók eiginkonuna Amy með í vinnuna í Suður-Kóreu. Amy er aðstoðarmaður hans á þessu móti þar sem hún heldur á golfpokanum og gefur honum góð ráð.

„Það eru oft þannig að einföldu ráðin virka best. Konan mín spurði mig afhverju ég væri hættur að setja afturendann á mér út í loftið þegar ég stillti mér upp við boltann. Hún sagði að á árum áður hafi ég verið eins og kona í kjól, með rassinn út í loftið. Ég fór að reyna að gera slíkt aftur og það virkaði mjög vel,“  sagði DiMarco í dag en hann lék á 68 höggum. Hann hefur aðeins náð í gegnum niðurskurðinn á tveimur af tíu síðustu mótum sem er slakasti árangur hans á ferlinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert