Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG hóf leik í dag á Andalúsíu meistaramótinu í golfi sem fram fer á Spáni. Birgir lék á einu höggi yfir pari eða 73 höggum og er hann í 63. sæti ásamt fjölmörgum öðrum kylfingum.
Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og er Lee Westwood frá Englandi efstur eftir fyrsta keppnisdaginn á 7 höggum undir pari vallar.
Skorkort Birgis.
Birgir lék fyrri 9 holurnar í dag á einu höggi yfir pari eða 37 höggum þar sem hann fékk 2 skolla og 1 fugl. Á síðari 9 holunum fékk hann fugl á 10. braut og skolla á þeirri 16.
Margir þekktir kappar eru á svipuðu skori og Birgir eftir fyrsta keppnisdag mótsins. Darren Clarke frá Norður-Írlandi lék á 73 höggum líkt og Birgir. Miquiel Angel Jiménez lék á 74 höggum og Daninn Thomas Björn lék á pari vallar. Jose Maria Olazabal frá Spáni hefur verið lengi frá keppni vegna meiðsla og er mótið í Andalúsíu á meðal þeirra fyrstu hjá honum eftir langt hlé. Olazabal lék á 71 höggi í dag eða einu höggi undir pari.
Birgir lék á þessum velli á sama móti fyrir ári síðan og endaði hann í 34. sæti á 6 höggum undir pari vallar þar sem hann lék á 73, 68, 70 og 71 höggi.
Staða Birgis á peningalista Evrópumótaraðarinnar er ekki góð en hann er í 256. sæti eftir að hafa tekið þátt á 4 mótum á þessum keppnistímabili. Alls eru 290 kylfingar á peningalista Evrópumótaraðarinnar.
Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á einu af fjórum mótum og 84. sætið er besti árangur hans á tímabilinu. Í desember lék Birgir á tveimur mótum í Suður-Afríku og hann komst í gegnum niðurskurðinn á öðru þeirra. Hann lék á ný í Suður-Afríku í janúar og mótið á Madeira í síðustu viku var fyrsta mótið sem fram fer í Evrópu á þessu tímabili.