Montgomerie sár og svekktur

Colin Montgomerie fær ekki að taka þátt á Mastersmótinu í …
Colin Montgomerie fær ekki að taka þátt á Mastersmótinu í ár og hann er sár og svekktur. Reuters

Colin Montgomerie frá Skotlandi verður ekki á meðal keppenda á Mastersmótinu í golfi sem hefst í næstu viku en hann náði ekki að komast í hóp 50 efstu á heimslistanum í tæka tíð fyrir mótið. Montgomerie hefur gagnrýnt hvernig staðið er að því að „bjóða“ kylfingum á Mastersmótið og það sem fer mest í taugarnar á Montgomerie er að kylfingar sem eru neðarlega á heimslistanum fá boð um að taka þátt.

„Ég hef ekki fengið símtal frá Augusta vellinum og ég á ekki von á því. Það eru margir Bretar á meðal keppenda en ef ég væri t.d. Asíu þá gæti ég átt von á símtali,“  sagði Montgomerie í viðtali við Sky-fréttastofuna í gær. Montgomerie er á meðal margra kylfinga sem hafa gagnrýnt hvernig staðið er því að bjóða nokkrum kylfingum frá löndum sem hafa keypt sjónvarpsréttinn frá Mastersmótinu. 

„Síðast þegar ég komst ekki í hóp 50 efstu á heimslistanum árið 2005 var ég í 51. sæti þegar keppni hófst. Mér var ekki boðið en þess í stað var Shingo Katayama frá Japan boðið en hann var í 67. sæti heimslistans á þeim tíma. Ég hef ekkert á móti Katayama en það sem mér og fleirum finnst undarlegt er að sjónvarpsréttur í nokkrum löndum virðist skipta meira máli en staðan á heimslistanum. Það er stórmál að fá boð um að taka þátt á stórmóti og að mínu mati eiga reglurnar um það hverjir fá að taka þátt á stórmóti að vera mjög skýrar líkt og á hinum þremur stórmótunum,“  sagði Montgomerie.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert