Player ætlar að taka á lóðunum

Gary Player er með mjúka og flotta sveiflu þrátt fyrir …
Gary Player er með mjúka og flotta sveiflu þrátt fyrir að vera 72 ára gamall. Reuters

Gary Player frá Suður-Afríku setti sér markmið fyrir Mastersmótið en hinn 72 ára gamli kylfingur hefur leikið á þessu móti í rúmlega hálfa öld. Player hefur þrívegis sigrað á þessu móti og var þetta 51. mótið hjá hinum vel þjálfaða öldungi. Player kyssti grasið á 18. flötinni eftir að hann lauk leik í gær á 78 höggum og lofaði hann því að koma aftur að ári.

Staðan

„Ég sagði við sjálfan mig að ég ætlaði að koma aftur ef mér tækist að leika undir 80 höggum,“  sagði Player en hann hefur ekki komist í gegnum niðurskurðinn á þessu stórmóti s.l. 17 ár.  Player hefur í gegnum tíðina lagt ofuráherslu á gott líkamlegt ástand og lofar hann því að mæta sterkari til leiks að ári. „Ég ætla að bæta við fleiri lyftingaæfingum fram að næsta móti. Það er mjög erfitt að ná ekki inn á flöt í öðru höggi á par 4 brautunum. Það mun ekki gerast á næsta ári,“  sagði Player í gær en hann endaði í síðasta sæti mótsins á 17 höggum yfir pari.

Player er einn sigursælasti kylfingur sögunnar en hann hefur unnið 163 atvinnumót á ferlinum og þar af 9 stórmót. 

Mastersmótið (3): 1961, 1974 og 1978.

Opna breska (3): 1959, 1968 og 1974.

Opna bandaríska (1): 1965. 

PGA-meistaramótið (2): 1962 og 1972.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert