Tim Finchem framkvæmdastjóri PGA-mótaraðarinnar í golfi ætlar á næstu dögum að einbeita sér að því að koma golfíþróttinni á kortið á ný hjá Alþjóða Ólympíunefndinni, IOC.
Golf hefur ekki verið á keppnisdagskrá Ólympíuleikana í um 100 ár og er það markmiðið hjá Finchem að reyna að koma golfinu inn á keppnisdagskrá ÓL árið 2016. Keppnisdagskrá ÓL er ákveðin með 7 ára fyrirvara og þarf PGA því að vinna vel í sínum málum á næstunni en ekki er búið að ákveða hvar Ólympíuleikarnir fara fram árið 2016. Það verður ákveðið í október á næsta ári á fundi IOC í Kaupmannahöfn og samhliða þeim fundi verður ákveðið hvort golfið fer aftur inn á keppnisdagskránna.
Næstu leikar fara fram í Peking í Kína í ágúst á þessu ári og árið 2012 verða leikarnir í London á Englandi.
Það munaði litlu að golfið færi inn á ÓL í Atlanta árið 1996 í Bandaríkjunum. Þá var lagt upp með að keppt yrði á hinum sögufrægra Augusta velli þar sem Mastersmótið fer fram á hverju ári. Það varð ekkert úr þeim áætlunum eftir að nokkrir meðlimir í stjórn IOC gagnrýndu hvernig jafnréttismálum var háttað á Augusta vellinum en á þeim tíma fengu konur ekki að vera félagar í golfklúbbnum.
Billy Payne stjórnarformaður Augusta sagði um s.l. helgi að margir aðilar ætluðu sér að vinna saman að því að koma golfíþróttinni inn á ÓL. „Ég tel að það yrði mikil lyftistöng fyrir golfíþróttina að komast inn á ÓL og með þeim hætti væri hægt að stuðla enn betur að útbreiðslu golfsins á heimsvísu,“ sagði Payne við fréttamenn um s.l. helgi.