„Það má til sanns vegar færa að golfsýkin er hin mesta meinsemd og grefur árlega meira um sig,“ segir leikarinn og skemmtikrafturinn Þórhallur Sigurðsson, Laddi, sem fellur kyrfilega í þann fríða flokk íslenskra kylfinga sem kallast golfsjúklingar og láta vart sólarhring líða án þess að labba hring með golfsettið. Það viðurkennir hann strax sjálfur en bendir á að þessi ákveðna meinsemd sé að öllu leyti góðkynja og því andi hann tiltölulega rólega enn sem komið er.