Laddi í landsliðið

„Það má til sanns vegar færa að golfsýkin er hin mesta meinsemd og grefur árlega meira um sig,“ segir leikarinn og skemmtikrafturinn Þórhallur Sigurðsson, Laddi, sem fellur kyrfilega í þann fríða flokk íslenskra kylfinga sem kallast golfsjúklingar og láta vart sólarhring líða án þess að labba hring með golfsettið. Það viðurkennir hann strax sjálfur en bendir á að þessi ákveðna meinsemd sé að öllu leyti góðkynja og því andi hann tiltölulega rólega enn sem komið er.

Fimman er markmiðið

Laddi hefur fiktað við golf í hartnær fimmtán ár en fór ekki að taka leikinn alvarlega fyrr en fyrir tæpum tíu árum og liggur nú svo kylliflatur fyrir sportinu að hann stefnir ótrauður á að komast í landsliðið. „Þá á ég við öldungalandsliðið okkar eða svokallað senior, svo að það fari ekkert á milli mála. Það er mitt takmark að ná því og ég gef mér tvö ár til þess arna. Eins og sakir standa er ég með 7,3 í forgjöf en hef best náð niður í 6,8. Maður er eðlilega ryðgaður eftir veturinn og auk þess fór ég til kennara í allan vetur og er að breyta öllu sem hægt er að breyta. Stefnan er að komast niður í sex í forgjöf ekki síðar en í haust og svo niður í fimm á næsta ári og þá geta kannski farið að opnast dyr að landsliðinu. Það er draumurinn.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert