Rocco Mediate og Tiger Woods eigast við í dag í18 holu umspili um sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu á Torrey Pines vellinum í Kaliforníu. Þeir voru á einu höggi undir pari samtals eftir 72 holur en Woods náði að tryggja sér sæti í umspilinu með því að setja niður um þriggja metra pútt fyrir fugli á lokaholunni. Mediate þykir einn skemmtilegasti kylfingurinn á PGA-mótaröðinni en ef hann sigrar verður hann elsti sigurvegarinn í 108 ára sögu mótsins, 45 ára og 5 mánaða gamall. Rocco og Tiger hefja leik kl. 16 að íslenskum tíma.
„Ég get ekki farið fram á meira. Ég fæ að takast á við besta kylfing heims á einu af stórmótunum. Hann hefur sigrað á 13 stórmótum og er líklega sá besti í sögu golfsins,“ sagði Mediate í gær en hann er í 158. sæti heimslistans en Woods er efstur á þeim lista. „Ég hef engu að tapa og ég mun njóta dagsins,“ bætti Mediate við í gær en hann er þekktur fyrir að brosa og taka lífinu ekki of alvarlega úti á vellinum.
Fyrir ári síðan var Rocco meiddur í baki og gat ekki leikið á PGA-mótaröðinni. Hann starfaði sem sérfræðingur hjá golfsjónvarpsstöð á meðan hann var að jafna sig á þeim meiðslum. Allt frá árinu 1991 hefur Rocco glímt við bakmeiðsli og hann var fyrsti kylfingurinn í sögu PGA sem sigraði á atvinnumóti þar sem hann notaði pútter með löngu skafti.