Tiger og Rocco í 18 holu umspil

Tiger Woods getur landað 14. sigrinum á stórmóti á morgun …
Tiger Woods getur landað 14. sigrinum á stórmóti á morgun á Torrey Pines vellinum. Reuters

Tiger Woods og Rocco Mediate leika 18 holu umspil um sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu síðdegis á mánudag en þeir luku báðir leik á 1 höggi undir pari vallar. Woods tryggði sér fugl á lokaholunni og jafnaði þar með við Mediate. Lee Westwood frá Englandi varð þriðji á pari samtals en síðasta púttið hjá Westwood var of stutt og missti hann þar með af möguleikanum að komast í umspilið.

Staðan.

Rocco Mediate hafði lokið keppni á 71 höggi áður en Westwood og Woods kláruðu 18. holuna. Upphafshögg þeirra enduðu í brautarglompu og annað höggið hjá Woods úr glompunni fór utan brautar. Hann sló með fleygjárni og kom boltanum í 3 metra fjarlægð frá holu. Westwood var í svipaðri fjarlægð eftir þriðja höggið en púttið var of laust og hann fékk par. Woods gerði betur og setti niður púttið fyrir fugli og komst þar með í umspil um sigurinn. 

Rocco Mediate er í 168. sæti heimslistans en Woods er í efsta sæti á þeim lista. Mediate komst inn á Opna bandaríska meistaramótið með því að hafa betur í bráðabana á úrtökumóti en hann er 45 ára gamall og hefur sigrað á 5 PGA-mótum. Besti árangur hans á stórmóti er 6. sætið á PGA-meistaramótinu árið 2002. 

Rocco Mediate.
Rocco Mediate. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert