„Það stefnir í að þátttakendur verði hátt í 30 að þessu sinni,“ sagði Ágúst Guðmundsson, forsprakki Stjörnugolfsins, en það ágæta mót fer fram á Urriðavelli hjá golfklúbbnum Oddi í dag. Þar leiða saman hesta sína í golfinu vel þekktir Íslendingar til styrktar Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna.
Ýmis þekkt nöfn eru á listanum að þessu sinni; grínistinn Laddi, Guðjohnsen-fótboltafeðgar, Sveppi, Jón Arnór Stefánsson, Pétur Pétursson og tónlistarfólkið Helga Möller og Eyfi ásamt fleirum.
Hefst mótið klukkan tíu en einnig verða fulltrúar frá Neistanum á fjórum öðrum golfvöllum suðvestanlands allan daginn í dag og taka á móti framlögum.
Er þetta í fimmta sinn sem Stjörnugolf er haldið en hugmyndin gengur út á að einstaklingar eða fyrirtæki greiða 75 þúsund krónur fyrir að senda tvo keppendur til keppni móti stjörnunum heilan hring en mótið er fyrst og fremst til gamans og til að safna fé til þarfs málefnis.
Þeir sem hafa áhuga á að styrkja málefni geta hringt í 908-1000 og gefið þar með 1.000 kr. til Neistans.