„Það er ljóst að keppnistímabilið hjá mér hér á Íslandi er búið en ég veit ekki hvort ég verð klár í slaginn fyrir úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina í haust. Það er eiginlega allt á öðrum endanum en ég mun fá álit frá sérfræðingum á næstu dögum hvað best er að gera,“ sagði atvinnukylfingurinn Magnús Lárusson úr Kili en hann braut bátsbeinið í úlnlið í knattspyrnuleik með utandeildarliðinu FC Puma.
„Það er alveg hægt að segja að það hafi verið röng ákvörðun hjá mér að spila leikinn. Þetta var fyrsti leikur minn með liðinu á þessu tímabili en ég hef verið að leika mér í fótbolta í gegnum tíðina,“ sagði Magnús. Atvikið átti sér stað á mánudagskvöldið, degi eftir að hann endaði í öðru sæti á þriðja móti ársins á Kaupþingsmótaröðinni á Garðavelli á Akranesi. Þar tapaði Magnús í bráðabana gegn Þórði Rafni Gissurarsyni úr GR.
„Ég verð örugglega í 6-8 vikur í gifsi og kannski þarf ég að fara í aðgerð. Ég geri alveg ráð fyrir því að vera úr leik út þetta ár. Ef allt fer á versta veg gæti það verið niðurstaðan. Ég mun ekki ekki leika fleiri leiki með FC Puma, aldrei. Ég var í sókninni og sólaði varnarmann en við flæktumst eitthvað saman og hann datt síðan á hendina á mér. Ég fann að það var eitthvað mikið að og þegar ég kom á slysamóttökuna áttaði ég mig á því að ég hafði aldrei komið þangað áður. Ég hef varla fengið gat á hausinn í gegnum tíðina og þetta er því alveg nýtt fyrir mér að meiðast. Ég hefði alveg eins getað dottið í Kringlunni og meitt mig. Slysin gera ekki boð á undan sér og það er auðvelt að vera vitur á eftir á,“ sagði Magnús.