Norman er efstur fyrir lokadaginn

Greg Norman.
Greg Norman. Reuters

Greg Norman gefur ekkert eftir í baráttunni um sigurinn á Opna breska meistaramótinu. Ástralinn sem er 53 ára gamall er efstur fyrir lokadaginn en hann lék á 72 höggum í dag eða 2 höggum yfir pari og er hann samtals á 2 höggum yfir pari. Padraig Harrington frá Írlandi  og KJ Choi frá Suður-Kóreu eru jafnir í 2.-3. sæti á 4 höggum yfir pari en Harrington hefur titil að verja á mótinu. Simon Wakefield frá Englandi er á 5 höggum yfir pari í 4. sæti. 

Staðan.

Ef Norman sigrar þá verður hann elsti sigurvegarinn á stórmóti frá upphafi. „Ég veit að það eru margir sem voru með efasemdir um þátttöku mína á þessu móti. Eflaust hafa einhverjir spurt sjálfan sig: „Hvað er þessi maður að gera?“. „Ég hef leikið á stórmótum áður og ég hef náð árangri á þeim mótum. Það er einfaldlega langt síðan ég var í þessari stöðu,“ sagði Norman eftir hringinn í kvöld.

Aðeins fjórir á pari vallar í dag

Aðstæður á Royal Birkdale vellinum voru mjög erfiðar og um tíma  áttu kylfingar erfitt með að pútta á flötunum þar sem að boltar þeirra voru á hreyfingu. Aðeins fjórir kylfingar náðu að leika á pari vallar, 70 höggu, Davis Love III frá Bandaríkjunum, Svíinn Henrik Stenson, Ben Curtis frá Bandaríkjunum sem sigraði á þessu móti árið 2003 og Simon Wakefield frá Englandi.

Els og Mickelson í vandræðum 

Ernie Els frá Suður-Afríku sem sigraði á þessu móti árið 2002 lék á 74 höggum og er hann 11 höggum á eftir Norman. Els segir að keppnin hafi verið erfið upplifun. „Þetta hefur verið erfið vika fyrir mig á flötunum. Ég næ ekki að setja nógu mörg pútt ofaní og það fer í taugarnar á mér. Á síðari 9 holunum í dag var að ná áttum en það dugir ekki til,“ sagði Els. Phil Mickelson frá Bandaríkjunum er annar á heimslistanum en hann hefur ekki náð árangri á Opna breska meistaramótinu.

Mickelson lék á 76 höggum í dag og er hann á 13 höggum yfir pari líkt og Els.

Sergio Garcia frá Spáni var líklegur til afreka á mótinu en hann tapaði í fyrra í fjögurra holu umspili um sigurinn gegn Padraig Harrington á þessu móti fyrir ári síðan. Garcia lék á 74 höggum og er hann á 9 höggum yfir pari í 15. sæti. „Ég er alls ekki sáttur við minn leik. Ég reyndi hvað ég gat en ég fékk ekkert út úr þeirri vinnu,“ sagði Garcia en hann hefur aldrei sigrað á stórmóti á ferlinum.

8 sinnum í öðru sæti

Norman hefur ekki verið í efsta sæti fyrir lokahringinn á stórmóti frá árinu 1996 þegar hann var með 6 högga forskot á Nick Faldo frá Englandi á Mastersmótinu á Augusta. Norman lék lokahringinn á 78 höggum og Norman varð að sætta sig við annað sætið. Reyndar eru fáir sem hafa upplifað það jafnoft að enda í öðru sæti á stórmót en Norman hefur 8 sinnum endað í öðru sæti.

Í næstu viku ætlar Norman að keppa á Opna breska meistaramótinu fyrir eldri kylfinga á Troon vellinum. Ef hann nær að sigra á Opna breska meistaramótinu á Royal Birkdale vellinum verður hann elsti sigurvegari frá upphafi á stórmóti    
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert