Öndverðarnesvöllur stækkaður í 18 holur

Frá Öndverðarnesvelli.
Frá Öndverðarnesvelli. mbl.is

Í gær var Öndverðarnesvöllur formlega stækkaður í 18 holur og er völlurinn sá 14. á Íslandi sem er í fullri stærð. Framkvæmdir við stækkun vallarins hófust árið 2006, en seinni part sumars árið 2005, fengu forsvarsmenn klúbbsins, þáverandi framkvæmdastjóra GR, Margeir Vilhjálmsson til að gera tillögu að stækkun við Öndverðarnesvallarins.

Stækkunin er að helmingi í mýrlendi og helmingi í kjarrvöxnu hraunlendi.  Brautir vallarins eru breiðar og lengdin í jafnvægi við gömlu níu holurnar.  Völlurinn er hugsaður fyrir kylfinga af öllum getustigum, hann er því ekki langur, en til að skora völlinn vel er nauðsynlegt að staðsetja teighöggin rétt. 

Nýju flatirnar eru stórar og mikið lagt upp úr góðri staðsetningu á glompum. Mikil mótun fór fram í mýrlendinu og nutu menn þar mikillar jarðvegsmótunarkunnáttu og golfáhuga ýtustjórans Steindórs Eiðssonar, en honum hefur oft verið lýst sem töframanni þegar kemur að mótun golfvalla.  Hann hefur m.a. unnið við Korpúlfsstaðavöll, Hvaleyrarvöll, Hellishóla, Vífilsstaðavöll og fleiri golfvelli.

Nýju holurnar verða leiknar sem fyrri níu holur vallarins.  Fyrsta er þægileg 306 metra par 4 hola, önnur er par 5, lengsta holan á fyrri 9, 475 metrar.  Þriðja holan er 358 metra par 4 og sú fjórða 150 metra par 3. 

Holur númer 5 til 7, eru glæsilegar golfholur sem liggja í hraunlendi.  Þær eru ekki langar leika þarf af nákvæmni til að skora þær vel.  Mikið landslag er í sjöundu flötinni, eitt það mesta sem er að finna hérlendis.  Áttunda holan er stutt par 4 hola sem liggur öll upp í móti og 9. holan er 120 metra par 3, og flötin sést öll frá svölum golfskálans.

Aðaldriffjaðrirnar í uppbyggingunni hafa verið Ólafur Jónsson, formaður vallarnefndar, Guðmundur Hallsteinsson, formaður og Örn Karlsson, framkvæmdastjóri.  Fjölmargir félagsmenn hafa einnig lagt hönd á plóginn bæði með fjárframlögum og sjálfboðavinnu.

Golfklúbbur Öndverðarness var stofnaður árið 1974 og byggði  fyrsta golfvöllinn í sumarhúsabyggð á Íslandi.

Frá Öndverðarnesi.
Frá Öndverðarnesi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert