Padraig Harrington frá Írlandi hugsaði um margt þegar hann gekk eftir 18. brautinni á Royal Birkdale vellinum í gær þegar hann fagnaði sigri á Opna breska meistaramótinu í golfi. Harrington hafði titil að verja á mótinu og hann leyndi ekki gleði sinni eftir sigurinn en samt sem áður hugsaði hann einnig til Greg Norman frá Ástralíu sem var í efsta sæti fyrir lokadaginn.
„Ég sagði við Norman þegar við gengum niður 18. að mér þætti það leiðinlegt að ævintýri hans myndi enda með þessum hætti. Innst inni fannst mér hann eiga það skilið að saga hans yrði skrifuð í mótslok en á sama tíma langaði mig að sigra. Ég nýtti tækifærið þegar það gafst,“ sagði Harrington en hann er fyrsti Evrópubúinn frá árinu 1906 sem tekst að verja titilinn á Opna breska meistaramótinu.
Á sérstakri hillu
„Þeir sem sigra á stórmóti í golfi eru komnir á sérstaka hillu og það eru ekki margir sem ná að verja titil á slíku móti,“ bætti Harrington við en hann lék lokahringinn á 69 höggum eða 1 höggi undir pari.
Greg Norman var í brúðkaupsferð á Englandi með eiginkonu sinni Chris Evert en Ástralíumaðurinn hefur lítið æft golf á undanförnum misserum. Hann var því undrandi þegar hann var í þeirri stöðu að vera með tveggja högga forskot fyrir lokadaginn og hann var með eitt högg í forskot þegar 9 holur voru eftir. Hann lék lokahringinn á 77 höggum þar sem hann fékk 8 skolla. Norman endaði í 3.-4. sæti en Ian Poulter frá Englandi varð annar.
Norman hefur sex sinnum áður verið í efsta sæti fyrir lokadaginn á stórmóti án þess að landa sigri. „Þegar ég var yngri tók ég það mjög nærri mér að hafa ekki landað sigri eftir að hafa verið í efsta sæti fyrir lokadaginn á stórmóti. Mér líður ekki þannig núna. Ég held að ég hafi komið flestum á óvart með því að blanda mér í baráttuna,“ sagði Norman en hann ætlar að taka þátt á Opna breska meistaramótinu fyrir eldri kylfinga sem hefst í þessari viku.
Gott að vera meiddur?
Harrington átti við meiðsli að stríða í úlnlið nokkrum dögum áður en Opna breska meistaramótið hófst og lék hann því ekki þrjá æfingahringi eins og hann er vanur að gera. Harrington telur að meiðslin hafi gert það að verkum að hann mætti ferskur til leiks. „Meiðslin trufluðu undirbúning minn fyrir mótið. En á sama tíma var engin pressa á mér. Ég bjóst ekki við miklu og ég fann að þegar mótið var hálfnað var ég ekki þreyttur. Ég er vanur að leika þrjá æfingahringi fyrir stórmót en að þessu sinni gerði ég það ekki. Kannski hefur það hjálpað til þar sem að aðstæður voru mjög erfiðar,“ sagði Harrington en hann hafði ekki sigrað á atvinnumóti í golfi frá því hann sigraði á Opna breska meistaramótinu í fyrra.
Hann er í þriðja sæti heimslistans á eftir Phil Mickelson sem er annar og Tiger Woods sem er í efsta sæti.