Örlygur þekkir hverja þúfu

Örlygur Helgi Grímsson losar eina slátturvélina sem var föst á …
Örlygur Helgi Grímsson losar eina slátturvélina sem var föst á Vestmannaeyjavelli. mbl.is/Sigfús Gunnar Guðmundsson

„Völlurinn er í nokkuð góðu standi að mínu mati. Það er lítið um skemmdir á flötunum en ég viðurkenni að flatirnar voru aðeins betri í fyrra en í ár. Það eru smáskemmdir í flötunum á 14. og 15. braut en ekkert alvarlegt,“ segir Örlygur Helgi Grímsson, vallarstjóri Vestmannaeyjarvallar. Það verður nóg að gera hjá vallarstjóranum á meðan Íslandsmótið fer fram því hann er afrekskylfingur sjálfur og ætlar að vera með á Íslandsmótinu í höggleik. Örlygur er klúbbmeistari GV í ár en hann lék hringina fjóra á samtals 2 höggum yfir pari (68-68-72-74).

„Ég æfi nánast ekki neitt og spila bara golf. Það gefst ekki tími til æfinga og ég er ekkert að svekkja mig á því lengur.“ Samkvæmt venju eru holurnar á flötunum 18 færðar til á hverjum degi og er það mikil kúnst að velja rétta staðinn á flötinni fyrir holuna.

„Ég mun að sjálfsögðu ekki velja holustaðsetningarnar, það verða aðrir í því. Ég verð hinsvegar snemma á fótum alla dagana því við förum út á völl að vinna um kl. 4 á næturnar. Þá verða flatirnar slegnar og valtaðar. Við erum ekki það margir að vinna á vellinum að ég geti leyft mér að taka frí á meðan mótið fer fram,“ segir vallarstjórinn en hann þekkir hverja þúfu á vellinum. Það hafa ekki verið gerðar miklar breytingar á vellinum frá því að Íslandsmótið fór þar fram síðast árið 2003. Á því móti sigruðu Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR og Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG.

„Við höfum breytt aðeins slættinum á par 5-brautunum. Brautirnar hafa aðeins verið þrengdar við lendingarsvæðin eftir upphafshöggin. Á 4. braut er verið að byggja vélageymslu hægra megin við brautina og við höfum því breytt legu brautarinnar aðeins. Kylfingar þurfa því að slá meira til vinstri á 4. en áður. Við þrengdum einnig lendingarsvæðin á 16. og 18. braut. “

Rigningin er góð

Örlygur hefur fylgst vel með veðurspánni undanfarna daga en útlit er fyrir að það rigni á keppendur.

„Á meðan það verður ekki mikið rok þá er í góðu lagi að það rigni. Það eina sem maður vill ekki er austanátt. Þá verður of hvasst hér í Eyjum. Allar aðrar áttir eru í góðu lagi og ég held að veðrið verði ekki vandamál. Það sáu allir aðstæðurnar sem kylfingarnir á Opna breska meistaramótinu voru að glíma við.“

Örlygur segir að hraðinn á flötunum verði ekki mjög mikill þar sem von er á úrkomu á meðan mótið fer fram. „Brautirnar á vellinum þurftu á því að halda að fá rigningu og það er því gott fyrir völlinn. Að sjálfsögðu er betra að leika golf í þurru veðri en það er ekki á allt kosið.“

Forráðamenn Golfklúbbs Vestmannaeyja fá aðstoð frá Golfklúbbi Reykjavíkur á meðan á mótinu stendur en GR lánar nokkrar sláttuvélar til þess að hægt verði að slá allar flatir og brautir á sem skemmstum tíma.

Örlygur telur að margir eigi eftir að berjast um sigurinn í karlaflokknum í Eyjum. „Sá sem púttar best á mótinu verður meistari. Þannig er það alltaf. Ólafur B. Loftsson úr Nesklúbbnum og Þórður Rafn Gissurarson úr GR virðast „heitir“ þessa dagana og ég býst við þeim í toppbaráttunni, ásamt fleirum,“ sagði Örlygur Helgi Grímsson, vallarstjóri og afrekskylfingur

Í hnotskurn
Íslandsmótið í höggleik hét áður Landsmót en fyrir nokkrum árum var hætt að keppa um Íslandsmeistaratitilinn í mörgum flokkum. Aðeins einn flokkur tekur þátt, meistaraflokkur. Árið 2003 fór Íslandsmótið síðast fram í Eyjum. Þá sigraði Birgir Leifur Hafþórsson í karlaflokki og Ragnhildur Sigurðardóttir í kvennaflokki. Birgir er ekki á meðal keppenda í ár.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert