Kylfingar á Íslandsmótinu í höggleik hófu leik klukkan 8.30 í morgun. Veðrið í Eyjum virðist ætla að verða svipað og hina þrjá dagana, stífur vindur en þurrt.
Heiðar Davíð Bragason, sem hefur fimm högga forystu á Björgvin Sigurbergsson, GK, hefur leik klukkan 13.30 ásamt Björgvini og Ottó Sigurðssyni. Það má því gera ráð fyrir að um klukkan 18.30 verði ljóst hver verður Íslandsmeistari 2008.
GR-ingar binda miklar vonir við Heiðar Davíð því klúbburinn hefur ekki átt Íslandsmeistara í karlaflokki síðan Sigurður Pétursson, sem er meðal keppenda núna, varð meistari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 1985. Þeir eru því orðnir langeygir eftir titlinum.
Síðasti ráshópur hjá konunum, Nína Björk Geirsdóttir, GKj, Helena Árnadóttir, GR og Tinna Jóhannsdóttir, Keili, hefur leik klukkan 12.20 og ættu að klára um klukkan fimm.