Vijay Singh frá Fíjí stóðst pressuna og sigraði á WGC-heimsmótinu í golfi sem lauk í Ohio í kvöld. Singh lék á tíu höggum undir pari samtals en Englendingurinn Lee Westwood og Ástralinn Stuart Appleby voru aðeins höggi á eftir.
Fyrir lokadaginn voru þeir Singh, Westwood og Phil Mickelson jafnir á átta höggum undir pari en þeim síðastnefnda fataðist flugið á lokaholunum. Þegar nokkuð var liðið á lokahringinn var Mickelson jafn Singh á ellefu undir pari.
Singh lenti jafnframt í nokkrum vandræðum og sérstaklega voru púttin að hrella hann eins og hann óttaðist fyrir mótið. Singh og Westwood voru í síðasta ráshóp og á 18. holu þurfti að Singh að setja niður um þriggja metra par pútt til þess að tryggja sér sigurinn. Hann stóðst pressuna þrátt fyrir að hafa misst nokkur slík pútt í dag.
Þetta var fyrsti sigur Vijay Singh á PGA mótaröðinni síðan í mars 2007 sem telst nokkuð langur tími á hans mælikvarða en þessi 45 ára gamli kylfingur hefur nú sigrað þrjátíu og tvisvar sinnum á mótaröðinni. Singh hefur tvívegis hafnað í öðru sæti á þessu ári. Hann hefur þrívegis sigrað á risamóti á ferlinum og ætti að mæta til leiks fullur sjálfstrausts síðasta risamót ársins, PGA meistaramótið, hefst á fimmtudaginn.
Þetta var í fyrsta sinn sem Singh sigrar á heimsmótinu. Hann var dottinn út af topp tíu á heimslistanum en talið er að með þessum sigri muni hann færast alla leið upp í fjórða sæti.