Golfklúbbur Keilis úr Hafnarfirði varð í dag tvöfaldur Íslandsmeistari í sveitakeppni í golfi. Karlasveitin vann sigur á GKJ í úrslitaleik, 3:2, og kvennasveitin lagði sveit GR að velli.
Í karlaflokki hafnaði GKG í þriðja sæti, GR í fjórða, GL í fimmta og GS í því sjötta. Sveitir NK og GSE lentu í sjöunda og áttunda sæti og falla því í 2. deild. Sveitir GV og GA enduðu í tveimur efstu sætum 2. deildar og leika því í 1. deild að ári.
Úrslitaeinvígið í leik GK og GKJ í karlaflokki var á milli þeirra Auðuns Einarssonar og Kristjáns Þórs Einarssonar, nýkrýnds Íslandsmeistara í höggleik. Þar var staðan jöfn fyrir 17. holu en Auðunn náði eins höggs forystu á þeirri holu sem hann lét ekki af hendi.
Í úrslitaleik kvenna vann Ragna Björk Ólafsdóttir Ragnhildi Sigurðardóttur og þær Ásta Birna Magnúsdóttir og Tinna Jóhannsdóttir höfðu betur gegn Beglindi Björnsdóttur og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur. Þar með skiptu úrslitin í leik Ólafar Maríu Jónsdóttur og Helenu Árnadóttur ekki máli og þær féllust því á jafntefli.
Í kvennaflokki varð GKJ í þriðja sæti eftir að hafa haft betur gegn GKG, 2:1.