Vel kann að vera að áhugamenn í golfi heillist allajafnan fremur af stórkostlegu sóknarspili Tiger Woods en hvippinn-og-hvappinn-leik kappa á borð við Sergio Garcia. Þó getur það ekki farið milli mála hvorum megin hjartað slær þegar lið Evrópu og Bandaríkjanna mætast í dag og það á ekki ómerkari stað en í Valhöll sjálfri.
Það er ekki óþekkt að þeir allra áhugasömustu í golfinu mæti með golfsettið fyrir framan sjónvarpið meðan á útsendingu frá Ryder bikarnum stendur yfir ekki ólíkt því þegar smáfólkið mætti gjarnan með plastbyssur þegar vestri var í sjónvarpinu í „den tid“.
Enda er ærin ástæða til. Þar mætast, að frátöldum Tiger Woods, bestu kylfingar heims og engir aukvisar fylgja með eins og raunin er á öðrum stórmótum í golfi. Nei! Þarna eru þeir bestu þessa stundina frá Evrópu annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar. Og heimamenn eiga harma að hefna eftir tap síðastliðin ár en þar er sennilegast mesta sóknarfæri þeirra vestanhafs; enginn býst við sigri frá þeim, allra síst án síns besta manns.
Ítarlega fjallað um Ryder-keppnina í golfi bæði í Morgunblaðinu og 24stundum í dag en keppnin hefst nú fyrir hádegið.