Íslenskur starfsmaður á Valhalla

Starfsmenn á Valhalla laga skemmdir á 12. flöt eftir að …
Starfsmenn á Valhalla laga skemmdir á 12. flöt eftir að sjónvarpsturninn hafði endað inni á flötinni. mbl.is/Aðalsteinn Ingvarsson

Ryderkeppnin í golfi hefst kl. 12 á hádegi í dag á Valhalla vellinum í Kentucky þar sem að úrvalslið Bandaríkjana og Evrópu eigast við. Aðalsteinn Ingvarsson, vallarstjóri Grafarholtsvallar, hefur á undanförnum dögum verið við störf á Valhalla vellinum ásamt fjölda annarra sérfræðinga við að leggja lokahönd á keppnisvöllinn. Aðalsteinn verður við störf út keppnina sem lýkur á sunnudaginn en það hefur gengið á ýmsu á Valhalla á allra síðustu dögum fyrir keppnina.

Aðalsteinn segir að allt hafi farið úr skorðum í undirbúningnum þegar leifar af fellibylnum Ike fór yfir völlinn. Það rifnuðu upp um 20 tré á vellinum, sjónvarpsturn fauk inn á 12. flötina og ýmislegt lauslegt fauk af stað og má þar nefna sölutjöld, risa sjónvarpsskjái og skortöflur sem eru víðsvegar um keppnissvæðið.

Um 140 starfsmenn unnu frá morgni til kvölds á vellinum til þess að koma honum í keppnishæft ástand á ný en það voru ekki miklar skemmdir á vellinum sjálfum.

Aðalsteinn hefur fylgst með kylfingunum á æfingadögunum að undanförnu og vakti högglengd Bandaríkjamannsins JB Holmes athygli hans. Að sögn Aðalsteins sló Holmes inn á par 4 holu með sandjárni sem gæti alveg verið eðlilegt en þar sem að 15. brautin er 465 metrar þá er það nokkuð afrek að þurfa aðeins SW í annað höggið á slíkri braut. Holmes lék sér að því að slá inn á flöt í upphafshögginu á 13. en sú braut er 320 metrar að lengd.

Valhalla völlurinn er gríðarlega langur af þeim teigum sem notaðir verða í Ryderkeppninni. Alls er völlurinn um 6,800 metrar en til samanburðar er Grafarholtsvöllurinn í Reykjavík um 6,000 metrar af hvítum teigum og Hvaleyrarvöllur í Hafnarfirði er um 1000 metrum styttri af hvítum teigum en Valhalla.

Fellibylurinn Ike náði að hrista aðeins upp í mönnum á …
Fellibylurinn Ike náði að hrista aðeins upp í mönnum á Valhalla vellinum. mbl.is/Aðalsteinn Ingvarsson
Jack Nicklaus kannaði hraðann á flötunum á Valhalla í gær …
Jack Nicklaus kannaði hraðann á flötunum á Valhalla í gær þegar hann heilsaði upp á Evrópuliðið. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert