Fimmtíu fallegar íslenskar golfbrautir

Frá 11. braut á Öndverðarnesi.
Frá 11. braut á Öndverðarnesi. mbl.is/Gunnar Sverrisson

Kylfingar á Íslandi hafa ákveðnar skoðanir á því hvaða golfbrautir skari framúr á fjölmörgum golfvöllum landsins. Gunnar Sverrisson áhugakylfingur og ljósmyndari stendur að útgáfu á bókinni 50 fallegar golfbrautir þar sem afrekskylfingarnir Þorsteinn Hallgrímsson og Úlfar Jónsson skrifa texta um golfbrautirnar. Gunnar segir að hugmyndin að bókinni hafi orðið til í bíltúr með eiginkonunni. 

„Hugmyndin að bókinni kom í sumar í einum af fjölmörgum bílferðum mínum um landið. Ég sagði við konuna mína að núna væri komið að því að gefa út bók með myndum af fallegustu golfbrautum landsins. Þessi hugmynd er nú orðin að veruleika og það sem stendur uppúr eftir þessa vinnu er að á Íslandi er ótrúleg fjölbreytni í náttúrufegurð á golfvöllum. Það er von mín að kylfingar taki bókina með sér í bíltúrinn á næsta sumri og skoði þessar perlur sem fjallað er um í bókinni,“ sagði Gunnar Sverrisson ljósmyndari en hann stendur að útgáfu á bókinni 50 fallegar golfbrautir. 

Hnitmiðaður texti

Afrekskylfingarnir Úlfar Jónsson og Þorsteinn Hallgrímsson fjalla um hverja braut í hnitmiðuðum texta og segir Gunnar að þekking þeirra á íþróttinni  sé mikil. „Þeir eru fagmenn og hafa báðir orðið Íslandsmeistarar í höggleik. Texti þeirra er lipur, skemmtilegur og fræðandi.“

Gunnar tók myndarnar s.l. sumar en hann náði ekki að leika allar þær brautir sem hann fjallar um í bókinni.

 „Ég lék mikið á ferð okkar um Vestfirði, og þar stendur 7. brautin á Þingeyri uppúr að mínu mati. Stórkostleg par 3 hola. Ég á erfitt með að gera upp á milli þeirra brauta sem fjallað er um. Þær eru allar einstakar á sinn hátt.“ Það fór mikill tími í myndatökurnar og eyddi Gunnar stundum heilum degi á sama vellinum.

Birtan aðalatriðið

„ Birtan er aðalatriðið þegar ég var að taka myndirnar. Ég leyfði mér oft að bíða eftir réttu birtustigi og það þurfti stundum að bíða lengi eftir rétta augnablikinu. Ég fór tvívegis hringinn í kringum landið í sumar og eina ferð á Vestfirði til þess að taka myndir. Það er eitt helsta markmið bókarinnar að kynna fyrir Íslendingum þá möguleika sem eru í boði fyrir kylfinga hér á landi. Íslenskir golfvellir eru margir, og þeir sem búa á Höfuðborgarsvæðinu hafa marga möguleika til þess að kanna betur það sem er í boði úti á landi. T.d. er golfvöllurinn í Vestmannaeyjum einstakur á heimsvísu en samt eru ótrúlega margir sem eiga eftir að skoða þann völl.

Og það sama má segja af þeim sem eru úti á landi, það eru fjölmargir skemmtilegir golfvellir á Höfuðborgarsvæðinu,“  sagði Gunnar Sverrisson ljósmyndari.

Fjórða flötin á Hlíðavelli í Mosfellsbæ er með tilkomumikinn bakgrunn.
Fjórða flötin á Hlíðavelli í Mosfellsbæ er með tilkomumikinn bakgrunn. Gunnar Sverrisson
Á Garðvelli á Akranesi er 6. flötin ein af perlum …
Á Garðvelli á Akranesi er 6. flötin ein af perlum vallarins. Gunnar Sverrisson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert