Það má með sanni segja að kylfingar hafi sýnt sínar bestu hliðar á fyrstu tveimur hringjunum á Bob Hope Classic-golfmótinu. Bandaríski kylfingurinn Pat Perez var með forystu eftir tvo hringi á 20 höggum undir pari á PGA West-vellinum í Kaliforníu. Ótrúlegt golf hjá honum en fleiri léku vel og af þeim 127 kylfingum sem reyna þarna með sér voru allir nema fimm undir pari eftir tvo daga.
Árangur Perez er met á bandarísku mótaröðinni því enginn kylfingur hefur verið 20 höggum undir pari eftir tvo fyrstu hringina á mótum þar. Fyrri hringinn lék hann á 11 undir pari en annan hringinn á 9 undir pari.
„Þessir tveir hringir voru ótrúlegir en koma mér samt ekkert á óvart því ég hef æft mikið og notaði undirbúningstímabilið mjög vel. Ég er ánægður með þessa tvo hringi, en menn verða að muna að þetta eru bara tveir hringir og það skiptir máli hvar maður veður þegar búið er að spila alla fimm hringina. Ég ætla að halda áfram að spila svona og vera hérna síðdegis á sunnudaginn þegar allir hafa lokið leik,“ sagði Perez.
Hann var spurður hvort hann teldi að hann hefði verið með forystu ef fleiri sterkir kylfingar hefðu verið meðal keppenda og svarið lá auðvitað í augum uppi: „Já, er það ekki nokkuð augljóst? Það hefur enginn verið á 20 undir pari eftir tvo hringi í nokkru móti.“ skuli@mbl.is