Hin 19 ára gamla Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi varð í dag Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta skipti eftir gríðarlega spennandi keppni á lokahringnum. Signý Arnórsdóttir úr GK setti mikla pressu á Valdísi í dag en pútterinn brást henni á 17. flöt og varð hún því höggi á eftir Valdísi.
Valdís Þóra á sigurinn skilið enda búin að vera með forystu nánast allt mótið. Signý jafnaði við hana eftir 8 holur í dag en Valdís fékk fugl strax á 9 holu og hélt forystunni eftir það.
Dramatíkin var hins vegar gríðarlega á 17. holu en þá munaði einu höggi og Valdís fékk skolla. Parpútt Signýjar fór nánast heilan hring á holubarminum en vildi ekki niður. Auk þess var Signý mjög nálægt því að setja niður pútt fyrir fugli á 18. flöt þar sem Valdís fékk par.
Lokastaðan:
Valdís Þóra Jónsdóttir GL +11
Signý Arnórsdóttir GK + 12
Ásta Birna Magnúsdóttir GK + 16
Ítarlega verður fjallað um Íslandsmótið í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.