Louis Oosthuizen stóðst álagið á St. Andrews í dag og lék þriðja hringinn á Opna breska meistaramótinu á 69 höggum. Hann hefur fjögurra högga forskot á Paul Casey fyrir lokadaginn.
Oosthuizen er samtals á 15 höggum undir pari sem er frábært skor hjá þessum lítt þekkta kylfingi sem aðeins hefur sigrað einu sinni á Evrópumótaröðinni. Hans besti árangur á risamóti er 73. sæti á PGA meistaramótinu árið 2008.
Paul Casey mun leika með Oosthuizen í síðasta ráshópnum á morgun. Casey lék frábærlega í dag eða á 67 höggum og er á 11 undir pari samtals. Gera má ráð fyrir að Casey geri harða atlögu að titlinum á morgun en hann hefur aldrei unnið risamót þrátt fyrir að hafa verið ofarlega á heimslistanum um nokkuð langa hríð. Verandi Englendingur þá hefur hann einnig góðan stuðning áhorfenda.
Martin Kaymer frá Þýskalandi er þriðji á 8 undir pari. Höggi á eftir eru Svíinn Henrik Stenson, Spánverjinn Canizares og Englendingurinn Lee Westwood. Enginn þeirra hefur heldur unnið risamót og það er því allt útlit fyrir að sigurvegarinn á morgun muni vinna sitt fyrsta risamót. Slíkt er óvenjulegt á St. Andrews.
Tiger Woods er kominn mjög langt á eftir og er á þremur undir pari. Hann lék á höggi yfir pari í dag, rétt eins og hann gerði í gær.