Kristján Þór Einarsson, úr Kili í Mosfellsbæ, kom aftan að efstu mönnum á lokahring Íslandsmótsins í gær og tryggði sér silfrið með því að spila á 69 höggum. Með því skaust hann upp fyrir öfluga kylfinga sem voru á undan honum fyrir lokahringinn, eins og Sigmund Einar Másson, Hlyn Geir Hjartarsson og Heiðar Davíð Bragason.
,,Ég byrjaði hringinn mjög vel og kom mér ekki í nein vandræði. Ég bæði púttaði og sló mjög vel og þetta var því vandræðalaust golf,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið. Hann lék svipaðan leik í Vestmannaeyjum fyrir tveimur árum síðan og nældi sér í þáttöku í umspili með frábærri spilamennsku á lokahringnum. Umspilið vann hann og stóð uppi sem Íslandsmeistari. ,,Ég veit ekki hvað þetta er. Ég var líklega með of miklar væntingar fyrir fyrsta hringinn og ég var að pirra mig á hlutunum þegar þeir gengu ekki eftir. Væntingarnar lækkuðu síðari tvo dagana og þá fór ég að spila golf,“ sagði Kristján en væntingar hans voru skiljanlegar í ljósi þess að hann varð Íslandsmeistari í holukeppni á Kiðjabergsvellinum í fyrra.
,,Þegar hlutirnir gengu ekki eftir þá var það svekkjandi. Ég er hins vegar ánægður með niðurstöðuna. Ég spilaði fínt golf og púttin duttu loksins á lokahringnum og það bjargaði miklu,“ sagði Kristján Þór Einarsson við Morgunblaðið þegar niðurstaðan lá fyrir.