Johnny Miller, einn sérfræðinga NBC sjónvarpsstöðvarinnar í golfíþróttinni, líkti ferli Tigers Woods við feril Mikes Tysons hnefaleikakappa.
Miller sagðist sjá ýmislegt svipað hjá þessum bandarísku íþróttahetjum. „Staða Tigers í dag er svolítið eins og saga Mike Tysons ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Nánast ósigrandi, allir óttuðust hann og stóð sig vel undir pressu. Þar til Buster Douglas kom fram á sjónarsviðið...Líf hans hrundi. Hann var í sérflokki, langt fyrir ofan alla aðra, féll snögglega til jarðar og úti um allt eru brot sem þarf að pússla saman,“ sagði Johnny Miller í sjónvarpsútsendingu um helgina. Miller er þekktur í golfheiminum en hann sigraði bæði á opna bandaríska og opna breska á árunum 1973 og 1976. Á síðustu árum hefur hann haslað sér völl sem sérfræðingur í sjónvarpi og pistlahöfundur hjá Golf Digest tímaritinu.
Fyrir þá sem ekki þekkja sögu Tysons þá var hann ósigrandi í þungavigt hnefaleika þar til hann tapaði óvænt fyrir Buster Douglas. Í framhaldinu missti Tyson gersamlega tökin á lífi sínu og náði aldrei fyrri styrk í íþróttinni.