Watson fór holu í höggi

Tom Watson sækir kúluna í holuna á sjöttu braut.
Tom Watson sækir kúluna í holuna á sjöttu braut. Reuters

Bandaríski kylfingurinn Tom Watson stal senunni á Opna breska meistaramótinu í golfi í morgun þegar hann fór holu í höggi. Afrekið vann hann á sjöttu braut, sem er 155 metra löng.

Watson, sem er 61 árs, lék fyrstu fimm holurnar á pari í dag. Á sjöttu braut lenti kúlan á miðri flöt eftir upphafshöggið, skoppaði einu sinni og datt síðan í holuna við mikinn fögnuð áhorfenda. Watson er því á pari í heildina en hann lék fyrsta hringinn í gær á 72 höggum, tveimur yfir pari.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson fór einnig holu í höggi í mótinu í gær en upphafshögg hans á 16. braut fór beint í holuna.  

Watson nýtur mikilla vinsælda meðal breskra áhorfenda. Þetta er í 34. skipti sem hann tekur þátt í mótinu en hann hefur unnið það fimm sinnum og  hann var nærri búinn að vinna  mótið í sjötta sinn fyrir tveimur árum.

Daninn Thomas Bjørn er með forustu á mótinu, 5 höggum undir pari, en hann leggur af stað út á völl eftir hádegið. Enski áhugamaðurinn Tom Lewis, sem stal senunni í gær þegar hann lék einnig á fimm höggum undir pari, hefur leikið á tveimur höggum yfir pari í dag og er því samtals á 3 undir pari. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert