Ólafur Björn Loftsson skrifaði rétt í þessu nýjan kafla í sögu golfíþróttarinnar á Íslandi þegar hann tryggði sér þátttökurétt í næsta móti á PGA-mótaröðinni sem hefst á fimmtudaginn.
Ólafur verður á meðal keppenda á Wyndham-meistaramótinu sem fram fer í Norður-Karólínuríki en þar er Ólafur einmitt við háskólanám í Charlotte.
Ólafur tryggði sér rétt til að spila á mótinu með því að sigra á Cardinal-áhugamannamótinu í sama ríki en einungis eitt sæti var í boði á Wyndham-mótinu. Óhætt er að segja að Ólafur hafi sigrað með miklum glæsibrag því hann lék hringina þrjá á samtals 11 höggum undir pari, 65, 69 og 65 höggum og er völlurinn því par 70. Ólafur sigraði með fjögurra högga mun en aðeins einn kylfingur ógnaði honum á lokasprettinum en sá sprakk á limminu á síðustu holunni og fékk skramba.
Ólafur verður í góðum félagsskap á Wyndham-mótinu enda leika allir snjöllustu kylfingar Bandaríkjanna á PGA-mótaröðinni og margir þeirra snjöllustu í heiminum. Enginn Íslendingur hefur leikið á PGA-mótaröðinni en Birgir Leifur Hafþórsson og Ólöf María Jónsdóttir eru þau einu sem hafa verið með fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.