Ólafur Björn Loftsson kylfingur úr Nesklúbbnum hefur leik í dag í PGA-mótaröðinni, fyrstur Íslendinga. Hann vann sér keppnisrétt á mótinu með sigri á sunnudaginn síðastliðinn, þá á áhugamannamótaröðinni.
Mótið fer fram í Greensboro í Norður-Karolínuríki. Morgunblaðið fékk reyndan kylfing, Birgi Leif Hafþórsson, til að spá í spilin og velta fyrir sér möguleikum, kostum og afreki Ólafs.
„Þetta er frábært tækifæri og að vinna áhugamannamót með svona lagað í húfi [vinna sér sæti á móti í atvinnumótaröðinni] er náttúrlega frábært, sérstaklega í ljósi þess að hann vissi fyrirfram hvað var undir. Þú þarft sterkan karakter í það, sérstaklega á síðasta degi. Að byrja eins og hann byrjaði og spila eins og hann spilaði.
Hann fer sínar leiðir og hefur trú á því sem hann er að gera. Það er það sem skiptir öllu máli í þessu. Þá er hann duglegur og samviskusamur og um leið frábær fyrirmynd fyrir ungu strákana sem eru að koma upp,“ sagði Birgir um það afrek Ólafs að tryggja sig inn á atvinnumannamót.
Sjá ítarlegt viðtal við Birgi Leif í Morgunblaðinu í dag