Auðkýfingurinn Donald Trump gerir fátt nema að vekja á því mikla athygli, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingum. Það á einnig við um golfvöll sem er í byggingu í Aberdeen í Skotlandi. Trump segir völlinn eiga að vera þann besta í heimi og miðað við myndir í myndbandinu hér fyrir neðan er ekki ólíklegt að hann komist nærri því.
Eins og fram kemur á kylfingur.is voru myndirnar teknar í haust en völlinn á að opna í júlí á næsta ári. Þrátt fyrir að enn sé langt í opnun hafa þegar um 1000 kylfingar pantað sér rástíma fyrir 200 pund eða rétt rúmar 37 þúsund krónur.
Völlurinn er strandvöllur og byggður inn í landslagið, sem er hreint magnað. Greinilega hefur mikið verið lagt upp úr því að láta landið móta völlinn enda barðist Trump fyrir því að völlurinn yrði byggður á þessu svæði.