Evrópa varði Ryder-bikarinn í golfi

Liði Evrópu tókst að verja Ryder-bikarinn á Medinah-vellinum í Illinois í Bandaríkjunum í kvöld. Þjóðverjinn Martin Kaymer tryggði Evrópu síðasta stigið þegar hann sigraði Steve Stricker 1/0 eftir 18 holur.

Evrópa náði því 14 vinningum af 28 mögulegum sem er nóg til að verja bikarinn en Evrópa sigraði í Wales fyrir tveimur árum og hefur alls unnið níu sinnum frá 1979. Einn leikur var eftir þegar úrslitin réðust en þar áttust við Tiger Woods og Francesco Molinari. Tiger átti eina holu í forskot fyrir 18. holuna.

Liði Evrópu tókst að vinna upp fjögurra vinninga forskot á lokadeginum en að gærdeginum loknum höfðu Bandaríkin yfir 10:6. Evrópa vann því átta tvímenningsleiki af tólf á lokadeginum.

Evrópa kvittaði því fyrir ótrúlegan endasprett Bandaríkjanna árið 1999 þegar Bandaríkin unnu einnig upp 10:6 forystu á lokadegi. Þá tryggði Justin Leonard Bandaríkjunum sigurinn með því að vinna Jose Maria Olazabal, núverandi fyrirliða evrópska liðsins.

Uppfært kl. 22.27: Francesco Molinari vann síðustu holuna á móti Tiger Woods og þar með náði hann hálfum vinningi sem gerir það að verkum að Evrópa vann keppnina 14 1/2 - 13 1/2.

Úrslit í tvímenningi í kvöld:

Luke Donald - Bubba Watson 2/1
Ian Poulter - Webb Simpson 2/0
Rory McIlroy - Keegan Bradley 2/1
Justin Rose - Phil Mickelson 1/0
Paul Lawrie - Brandt Snedeker 5/3
Sergio Garcia - Jim Furyk 1/0
Lee Westwood - Matt Kuchar 3/2
Martin Kaymer - Steve Stricker 1/0
Francesco Molinari - Tiger Woods 1/2 - 1/2
Dustin Johnson - Nicolas Colsaerts 3/2
Zach Johnson - Graeme McDowell 2/1
Jason Dufner - Peter Hanson 2/0

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert