Tiger Woods sigraði í kvöld á Players Championship-mótinu í golfi á hinum fræga TPC Sawgrass-velli á Flórída.
Tiger lék samtals á 13 höggum undir pari og sigraði með tveggja högga mun en hann lék lokahringinn á 70 höggum. Hann hefur þá sigrað á fjórum mótum á PGA-mótaröðinni á árinu og er búinn að finna sitt gamla form.
17. braut vallarins er hin fræga par 3 eyjahola og í kvöld kom í ljós að hún er ekki bara til skrauts. Sergio Garcia kom á 17. teiginn á 13 höggum undir pari samtals en setti tvo bolta í röð í vatnið og lék hana á 7 höggum. Hann var heillum horfinn eftir þær hamfarir og setti einn til viðbótar í vatnið í upphafshögginu á 18. braut. Tiger þakkaði fyrir sig, fékk par á 18. holu og sigraði en Garcia endaði á 7 undir pari.