Konur fá inngöngu í fyrsta sinn í 260 ár

Konur hafa mátt spila á St Andrews vellinum en nú …
Konur hafa mátt spila á St Andrews vellinum en nú mega þær einnig gerast meðlimir í golfklúbbnum sem hefur bækistöðvar sínar á vellinum. AFP

Golfklúbburinn The Royal and Ancient Golf Club, sem á bækistöðvar sínar á hinum sögufræga St Andrews-velli, hefur ákveðið að breyta reglum sínum og leyfa konum inngöngu í fyrsta sinn í 260 ára sögu sinni.

Í golfklúbbnum eru 2.400 meðlimir sem kusu um það í gær hvort leyfa ætti konum að fá inngöngu. Yfirgnæfandi meirihluti var samþykkur því eða 85% þeirra sem kusu.

„Þetta er mikilvægur og jákvæður dagur í sögu R&A-Golfklúbbsins. Klúbburinn hefur unnið gott starf í þágu golfíþróttarinnar í 260 ár og mun gera það áfram í framtíðinni, með stuðningi allra sinna meðlima, bæði kvenna og karla,“ sagði Peter Dawson, framkvæmdastjóri R&A.

Dawson sagði að reglubreytingin tæki strax gildi og að „umtalsverður“ fjöldi kvenna myndi fá flýtimeðferð til að öðlast inngöngu í klúbbinn á næstu mánuðum.

Meðlimir klúbbsins spila eins og áður segir á St Andrews-vellinum í Skotlandi sem kallaður hefur verið heimili golfíþróttarinnar. Konum hefur verið leyft að spila á vellinum en ekki að koma inn fyrir dyrnar í klúbbhúsinu sjálfu, þar til nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert