Kristján Þór sigraði í bráðabana

Kristján Þór Einarsson með teighögg í dag.
Kristján Þór Einarsson með teighögg í dag.

„Ég hugsaði bara um að koma boltanum á flötina í bráðabananum. Það var ljúft að sjá boltann fara ofan í fyrir parinu,“ sagði Kristján Þór Einarsson eftir sigur á Símamótinu á Eimskipsmótaröðinni í karlaflokki sem lauk með bráðabana gegn Guðjóni Henning á Hlíðavelli í Mosfellbæ síðdegis.

Kristján Þór fékk par á 1. holu Hlíðavallar í bráðabananum gegn Guðjóni Henning Hilmarssyni úr GKG en þeir léku hringina þrjá á einu höggi yfir pari samtals. Kristján Þór lék lokahringinn á 69 höggum eða þremur höggum undir pari en Guðjón Henning, sem var með fjögurra högga forskot fyrir daginn, lék á á 75 höggum á lokahringnum.

Kristján Þór sigraði á þremur mótum í fyrra á Eimskipsmótaröðinni og hann hefur titil að verja á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fer um næstu helgi á Jaðarsvelli á Akureyri. „Ég hef titil að verja og það er alltaf markmiðið hjá mér að mæta til leiks til þess að sigra,“ bætti Kristján við.

Þetta er í fyrsta sinn sem Eimskipsmótaröðin fer fram á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar og tókst mótið vel í alla staði á frábærum velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert