Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er mætt til indversku höfuðborgarinnar Nýju Delí, þar sem hún mun keppa á næsta móti sínu á Evrópumótaröðinni í golfi. Skelfileg mengun er í borginni.
Íbúar Delí hafa neyðst til að klæðast andlitsgrímum til að verjast mikilli svifryksmengun, sem samkvæmt BBC er 90 sinnum meiri en Alþjóða heilbrigðiseftirlitið telur viðunandi. Ríkisstjóri Delí hefur ákveðið að loka öllum skólum borgarinnar næstu þrjá daga og hefur íbúum verið ráðlagt að halda sig innandyra á meðan unnið er að lausn á vandanum. Þá hefur verið sett fimm daga bann á byggingavinnu og framkvæmdir í borginni.
„Ég veit ekki hvort þetta hefur einhver áhrif á mótið en vonandi ekki,“ sagði Ólafía við Mbl.is, en hún var þá nýlent á Indlandi eftir frábæra frammistöðu í Abu Dhabi þar sem hún hafnaði í 26.-30. sæti eftir að hafa verið efst fyrstu tvo keppnisdagana.
„Kannski neyðumst við bara til að keppa með grímur,“ sagði Ólafía, sem vonaðist til að geta farið og heimsótt Taj Mahal á morgun í ferð á vegum Evrópumótaraðarinnar en var óviss vegna mengunarástandsins.