Hinn 64 ára gamli Björgvin Þorsteinsson er efstur eftir tvo hringi á Íslandsmóti 35 ára og eldri í golfi í Vestmannaeyjum. Skor Björgvins hingað til er líkt og hjá afrekskylfingi, 69 og 70 högg, sem er samtals eitt högg undir pari.
Björgvin keppir fyrir Golfklúbb Akureyrar en annar Akureyringur, Sigurpáll Geir Sveinsson sem keppir fyrir GKG, er þremur höggum á eftir.
Björgvin er sexfaldur Íslandsmeistari í höggleik og Sigurpáll þrefaldur. Næstir koma heimamennirnir Aðalsteinn Ingvarsson og Rúnar Þór Karlsson en þeir eru á fimm yfir pari samtals.
Forgjöf Björgvins fyrir mótið var 3,6. Fékk hann 39 punkta fyrir fyrsta hringinn og 38 punkta fyrir annan hringinn og á því von á talsverðri forgjafarlækkun að mótinu loknu.