Valdís Þóra Jónsdóttir er áfram í hópi efstu keppenda á Australian Ladies Classic-golfmótinu í Bonville í Ástralíu og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir flaug upp töfluna í nótt með frábærum þriðja hring.
Valdís lék hringinn á pari, 72 höggum, og er í 3.-6. sæti mótsins fyrir lokahringinn. Hún fékk fjóra fugla og fjóra skolla en lék tíu holur á pari. Valdís er samtals á 211 höggum, fimm höggum undir parinu, jöfn Katie Burnett frá Bandaríkjunum, Danielu Holmqvist frá Svíþjóð og Oliviu Cowan frá Þýskalandi. Celine Boutier frá Frakklandi er með fimm högga forystu, á 11 undir pari, en Holly Clyburn frá Englandi er önnur á 6 undir pari.
Ólafía er komin í 20.-23. sæti eftir glæsilega spilamennsku í nótt þar sem hún lék hringinn á 67 höggum, fimm undir pari vallarins. Hún fékk einn örn, fimm fugla og tvo skolla en lék tíu holur á pari. Ólafía er þar með búin að leika hringina þrjá á 217 höggum og er samtals á einu höggi yfir pari en hún var á miðjum öðrum hring mótsins á níu yfir pari.
Keppni á fjórða og síðasta hring hefst í Bonville seint í kvöld að íslenskum tíma. Mótið er liður í Evrópumótaröðinni.