„Svo bara hvarf hann“

Ólafía Þórunn á 13. teig í dag.
Ólafía Þórunn á 13. teig í dag. AFP

„Ég var 165 metra frá og ég sló með 5-járni. Ég hitti hann bara geðveikt vel og ég miðaði aðeins vinstra megin af því að boltinn rúllar alltaf til hægri. Svo bara hvarf hann og ég átti ekki alveg von á því. Það var smá sjokk en ótrúlega gaman,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir um ótrúlegt högg sitt, holu í höggi á 17. braut Dinah Shore-vall­ar­ins á ANA Inspirati­on mót­inu, fyrsta risamóti ársins í golfi.

Ólafía lauk leik á pari í dag, fékk sex skolla, einn örn, tvo fugla og eina holu í höggi.

„Hringurinn í dag var smá upp og niður. Ég strögglaði smá en hélt alltaf áfram að berjast. Svo fékk ég högg til baka hér og þar. Þegar ég fékk örn átti ég geggjað innáhögg og rúllaði púttinu í. Ég er mjög ánægð með það hvernig ég barðist í dag,“ sagði íþróttamaður ársins 2017 við fjölmiðlafulltrúa LPGA.

„Það er geðveikt að fá að spila á fyrsta risamóti ársins. Völlurinn er geggjaður, flatirnar eru ótrúlega harðar og karginn er svakalega þéttur. Ef þú missir boltann út af getur það verið mjög erfitt. Þetta er allt ótrúlega fagmannlegt hérna,“ sagði Ólafía.

Aðspurð um leikskipulag sitt á morgun svaraði Ólafía með skynsamlegum hætti.

„Ég ætla að vera þolinmóð á morgun og gera mitt besta áfram. Halda sama leikskipulagi og vera andlega sterk,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert