Neita að trúa öðru en við vinnum

Valdimar Grímsson lék sinn fyrsta landsleik 1985 gegn Ungverjum og hann man að sjálfsögðu eftir þeim leik. "Þetta var í Valence í Frakklandi í janúar, leiknum sem Stjáni (Kristján Arason) gerði fimmtán mörk. Við unnum 28:24 og ég man að ég lék meira og minna í öllu mótinu. Þetta var á tíma Bogdans og eftir þetta mót komu nokkrir tugir leikja þar sem maður sat meira og minna á bekknum," sagði Valdimar í gær.
 Hann sagði leikinn á sunnudaginn mjög mikilvægan. "Hópurinn er mjög vel stemmdur og það er svo skrítið að fyrir svona mikilvæga leiki þá er miklu rólegra yfir hópnum en fyrir leiki sem ef til vill skipta minna máli, þá er meiri galsi í mannskapnum. Núna eru menn einbeittir og ákveðnir í að sigra enda vita menn hvaða þýðingu leikurinn hefur. Þó svo menn hafi ekki velt þeim möguleika fyrir sér hvaða þýðingu það hefði fyrir íslenska landsliðið ef við komumst ekki til Egyptalands þá vita allir að HM í Egyptalandi er lykilinn að öllu - lykillinn að því að teljast meðal þeirra bestu.
 Hugsanlega væri hægt að komast á Ólympíuleikana í gegnum Evrópukeppnina en það er miklu langsóttara og erfiðara dæmi," sagði Valdimar og ítrekaði að hann hefði svo sem ekki hugsað þá hugsun til enda að tapa. "Við komum að þessu verkefni, það er að segja leikjunum tveimur við Ungverja, til að sigra í þeim báðum og það ætlum við okkur að gera. Ég neita að trúa öðru en við vinnum. Ég hef sagt það frá upphafi að við færum til Egytalands og þangað ætlum við, annað kemur ekki til greina," sagði Valdimar.
 Hann sagði menn ekki koma til leiks með það fyrir augum að ná jafntelfi. "Nei, svoleiðis förum við ekki í leikinn. Við ætlum okkur að vinna, jafntefli nægir en það er ekkert verið að hugsa um það. Við höldum áfram á þeirri braut sem lögð var í Laugardalshöllinni. Vörnin verður sterk og markvarslan einnig og síðan þurfum við aðeins að fínpússa sóknina og vanda okkur meira þar. Menn voru of bráðir í sókninni, sérstaklega þegar við vorum komnir dálítið yfir. Það gerist ekki aftur. Við gerum okkur allir grein fyrir því að ef við ætlum að vera í hópi þeirra bestu verðum við að vinna, eða ná altént einu stigi.
 Það eina jákvæða sem ég sé við að við skyldum missa niður góða forystu í Höllinni er að menn gera sér ennbetur grein fyrir því að það verður erfitt að leggja Ungverja að velli hérna. Ef við hefðum unnið stórt væri hættara við að menn væru heldur værukærari og hugsuðu sem svo að það væri nóg að halda bara í horfinu, það myndi duga til að komast áfram. Slíkt er ekki gott og ég held að með slíku hugarfari myndum við skjóta okkur í fótinn og þurfa að sitja eftir heima með sárt enni. Það er því að vissu leyti fínt að þurfa að sækja tvö stig hingað. Við vitum að Ungverjar eru í betri stöðu, þeir eru á heimavelli og til að ljúka við þetta verkefni verðum við að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var í Höllinni," sagði Valdimar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka