Aron og lærisveinar drógust gegn spænsku liði

Aron Kristjánsson, þjálfari danska handknattleiksliðsins Skjern.
Aron Kristjánsson, þjálfari danska handknattleiksliðsins Skjern. Morgunblaðið Brynjar Gauti

Danska liðið Skjern, sem Aron Kristjánsson þjálfar og þrír íslenskir handknattleiksmenn leika með, mætir BM Aragón frá Spáni í undanúrslitum EHF-keppninnar í handknattleik. Fyrri leikurinn verður á Jótlandi 24. mars en hinn síðari viku síðar á Spáni. Í hinni viðureign undanúrslitanna leikur Magdeburg við svissneska liðið Grasshopper-Club Zürich.

Aron sagði í samtali við danska fjölmiðla um helgina að hann vildi forðast að mæta þýska liðinu Magdeburg í undanúrslitum, þar sem það væri greinilega sterkast af þeim liðum sem eftir væru í keppninni. Aron varð þar með að ósk sinni. Þess má geta að handknattleiksmennirnir Jón Þorbjörn Jóhannsson, Vignir Svavarsson og Vilhjálmur Halldórsson leika allir með Skjern. Hætt er við að Vignir verði í leikbanni í fyrri leik undanúrslitanna þar sem hann fékk rautt spjald í síðari leik Skjern og Dunkerque í 8 liða úrslitum um síðustu helgi. Einnig var dregið til undanúrslita í meistaradeild Evrópu og þar mætir Flensburg frá Þýskalandi spænska liðinu Valladolid sem sló Íslendingaliðið Gummersbach úr keppni í 8 liða úrslitum. Portland San Antonio frá Pamplona á Spáni leikur við þýsku meistarana í Kiel og á fyrri leikinn á heimavelli. Sigfús Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, og samherjar hans hjá spænska liðinu Ademar León drógust gegn RK Zagreb frá Króatíu í undanúrslitum Evrópukeppni bikarhafa. Ademar León á síðari leikinn á heimavelli sem á að auka möguleika liðsins á að komast í úrslitaleikinn við annað hvort RK Bosna Sarajevo eða HSV Hamburg.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert