Danska liðið Skjern, sem Aron Kristjánsson þjálfar og þrír íslenskir handknattleiksmenn leika með, mætir BM Aragón frá Spáni í undanúrslitum EHF-keppninnar í handknattleik. Fyrri leikurinn verður á Jótlandi 24. mars en hinn síðari viku síðar á Spáni. Í hinni viðureign undanúrslitanna leikur Magdeburg við svissneska liðið Grasshopper-Club Zürich.
Aron sagði í samtali við danska fjölmiðla um helgina að hann vildi forðast að mæta þýska liðinu Magdeburg í undanúrslitum, þar sem það væri greinilega sterkast af þeim liðum sem eftir væru í keppninni. Aron varð þar með að ósk sinni. Þess má geta að handknattleiksmennirnir Jón Þorbjörn Jóhannsson, Vignir Svavarsson og Vilhjálmur Halldórsson leika allir með Skjern. Hætt er við að Vignir verði í leikbanni í fyrri leik undanúrslitanna þar sem hann fékk rautt spjald í síðari leik Skjern og Dunkerque í 8 liða úrslitum um síðustu helgi. Einnig var dregið til undanúrslita í meistaradeild Evrópu og þar mætir Flensburg frá Þýskalandi spænska liðinu Valladolid sem sló Íslendingaliðið Gummersbach úr keppni í 8 liða úrslitum. Portland San Antonio frá Pamplona á Spáni leikur við þýsku meistarana í Kiel og á fyrri leikinn á heimavelli. Sigfús Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, og samherjar hans hjá spænska liðinu Ademar León drógust gegn RK Zagreb frá Króatíu í undanúrslitum Evrópukeppni bikarhafa. Ademar León á síðari leikinn á heimavelli sem á að auka möguleika liðsins á að komast í úrslitaleikinn við annað hvort RK Bosna Sarajevo eða HSV Hamburg.