Stjarnan er áfram í efsta sæti úrvalsdeildar kvenna, DHL-deildinni, eftir leiki kvöldsins þar sem liðið vann stórsigur á HK, 40:26, á heimavelli í Garðabæ eftir að hafa verið níu mörkum yfir í hálfleik, 20:11. Stjarnan er þar með komin með 30 stig að loknum 17 leikjum. Valur er í öðru sæti með 28 stig eftir níu marka sigur á ÍBV í Eyjum, 29:20 og Grótta heldur þriðja sætinu þar sem hún vann Fram, 16:27, í íþróttahúsi Fram. Nýkrýndir bikarmeistarar Hauka mættu sveitungum sínum í FH og náðu að vinna með tveggja marka mun, 31:29, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 17:16.
Rakel Dögg Bragadóttir skoraði 9 mörk fyrir Stjörnuna í kvöld og næst henni kom Kristín Clausen með 7 mörk. Anna Sif Pálsdóttir skoraði sjö sinnum fyrir HK og Auksé Vysniauskaité gerði 6 mörk. Eva Margrét Kristinsdóttir var atkvæðamest Gróttu kvenna og skoraði 6 mörk hjá Framliðinu og Natasa Damljanovic og Sandra Paegle gerðu 5 mörk hvor. Ásta Birna Gunnarsson skoraði fimm sinnum fyrir Framliðið að þessu sinni. Ramune Pekarskyte og Hann Guðrún Stefánsdóttir skoruðu flest mörk bikarmeistaranna gegn FH. Ramune skoraði 7 mörk og Hanna Guðrún 6. Mest kvað að Ástu Björk Agnarsdóttur við markaskorun hjá FH, hún gerði 6 mörk og þær Andrea Olsen og Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir 5 mörk hvor.