Handknattleiksráð ÍBV hefur tekið þá ákvörðun að senda ekki lið til keppni á Íslandsmótinu 2007-2008 í meistaraflokki kvenna. Ákvörðunin er tekin eftir að allir möguleikar á þátttöku höfðu verið kannaðir. Þetta kemur fram á vef ÍBV.
Í yfirlýsingu frá handknattleiksráði ÍBV segir meðal annars: ,,Staðreyndin er því miður sú að enginn leikmaður á meistaraflokksaldri verður í Vestmannaeyjum næsta vetur. Við teljum það og mikið álag á unglingaflokk og nýkrýnda Íslandsmeistara 4. flokks að þurfa að bera uppi meistaraflokkslið auk þess að spila með sínum flokkum. Ekki stendur heldur til að manna liðið eingöngu útlendingum. Við stöndum þó strax betur árinu seinna þar sem meistaraflokksleikmenn eru á heimleið og hinar yngri hafa safnað sér reynslu og þroska."
ÍBV hefur verið í fremstu röð í kvennaboltanum undanfarin ár og varð síðast Íslandsmeistari í fyrra.