„Ekkert hægt að væla yfir þessu"

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is
„Það var alltaf borðleggjandi í mínum huga að annaðhvort myndum við hafna í riðli með Svíum eða Norðmönnum og það var úr að við drógumst í riðil með Svíum," sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, í gærkvöldi eftir að dregið var í riðla í Evrópumóti landsliða sem fram fer í Noregi 17.-27. janúar á næsta ári.

Íslenska landsliðið dróst í D-riðil með Evrópumeisturum Frakka, Slóvökum og Svíum. Leikið verður í Þrándheimi og verður fyrsti leikur Íslands við Svía fimmtudaginn 17. janúar. Daginn eftir verður leikið við Slóvaka og loks við Frakka hinn 20. janúar. Þrjú lið komast áfram í milliriðla þar sem leikið verður við þjóðirnar um C-riðil en í honum eru Spánverjar, heimsmeistarar Þjóðverja, Ungverjaland og Hvíta-Rússland. Líklega þarf að vinna einn leik í riðlakeppninni af þremur til þess að komast í milliriðil.

Í A-riðli keppninnar, sem fram fer í Stavangri, leika Króatar, Slóvenar, Pólverjar og Tékkar. Í B-riðli verða Danir, Rússar, Norðmenn og Svartfellingar. Norðmenn fengu að velja sér riðil eins og venja er með gestgjafa. B-riðill verður leikinn í Drammen. Milliriðlakeppnin verður háð í Stavangri og Þrándheimi og undanúrslit og leikir um sæti í íshokkíhöllinni í Lillehammer.

„Slóvakar komu mjög á óvart í umspilsleikjunum við Úkraínu með því að vinna stórt. Eigi að síður þá sýnist mér við hafa fengið slökustu þjóðina í þriðja styrkleikaflokkunum sem er Slóvakía," sagði Einar.

„Það er ekkert hægt að væla yfir þessari niðurstöðu. Við erum með hörkugott landslið og getum farið fullir sjálfstrausts í þessa keppni eins og aðrar. Á undanförnu ári höfum við unnið bæði Frakka og Svía í leikjum sem skipt hafa máli og því er engin ástæða til þess að mikla þetta verkefni eitthvað fyrir sér. Sennilega hefði ekkert verið betra að dragast í C-riðil með Spánverjum og Þjóðverjum, svo dæmi sé tekið. Evrópukeppnin er mjög erfið, skipuð sextán hörku handknattleiksþjóðum. Þegar þangað er komið er enginn leikur auðveldur. Það hefur alltaf legið fyrir," sagði Einar sem að sjálfsögðu vonast til að Ísland geti stillt upp sínu sterkasta landsliði í keppninni.

„Það er síðan jákvætt að leika í Þrándheimi sem er á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík," sagði Einar Þorvarðarson, léttur í bragði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka