Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla munu missa spón úr aski sínum á komandi leiktíð. Sigurður Eggertsson hefur ákveðið að flytjast búferlum til Árósa í Danmörku. Sigurður var mikilvægur hlekkur hjá liðinu síðasta vetur eins og undanfarin ár, en hann getur bæði leikið sem skytta og leikstjórnandi.
,,Ég ætla bara að gera eins og Róbert Gunnarsson gerði hér um árið og mæta bara með töskuna á æfingu. Það er bara spennandi að þurfa að sanna sig á nýjum stað. Ég mun örugglega spila handbolta þarna, bara spurning með hvaða liði," sagði Sigurður þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gærkvöldi.
Viðtal er við Sigurð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.