Alfreð tók við landsliðinu snemma á árinu 2006, af Viggó Sigurðssyni. Undir hans stjórn lagði það Svía að velli í úrslitaleikjum um sæti í lokakeppni HM sem haldin var í Þýskalandi í janúar á þessu ári. Þar komst Ísland í átta liða úrslit og var hársbreidd frá sæti í undanúrslitunum. Alfreð stýrði liðinu síðan til sigurs gegn Serbum í umspili um sæti á EM í Noregi í júnímánuði. Samningur hans rann út í lok júní og Alfreð sagði á þeim tíma að ólíklegt væri að hann gæti haldið áfram með landsliðið, vegna anna hjá félagsliði sínu í Þýskalandi, Gummersbach.
„Ég hugsaði málið í rólegheitum í sumar. Síðan var dregið í riðla fyrir keppnina og þá kom í ljós að liðið á mjög erfitt verkefni fyrir höndum í Noregi, það gæti í raun ekki verið erfiðara, en það er jafnframt mjög spennandi og það verður gaman að takast á við það. Í kvöld var svo stjórnarfundur hjá Gummersbach, ég hafði lagt fyrir þá þessa ósk um að geta haldið áfram með landsliðið og ég fékk jákvætt svar við því að þetta myndi ganga upp af þeirra hálfu," sagði Alfreð við Morgunblaðið.
Hann mun í raun aðeins vera með liðið í eina viku í lok október, og síðan á lokasprettinum áður en úrslitakeppni EM hefst í Noregi.
„Já, þetta er þannig lagað séð frekar einfalt. Við spilum tvo leiki við Ungverja heima á Íslandi í lok október, og komum síðan saman í Danmörku 4. janúar. Þar tökum við þátt í móti og spilum síðan einhverja leiki í viðbót áður en keppnin byrjar. Á öðrum tímum er ég á fullri ferð með Gummersbach í þýsku deildinni og Meistaradeildinni en þannig verður þetta bara að vera," sagði Alfreð.