Handknattleiksdeild Vals hefur sent beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að dómurinn meti sanngjarnt „gagngjald", eða kaupverð á Sigfúsi Páli Sigfússyni, leikmanni Fram, sem hefur óskað eftir því að ganga til liðs við Valsmenn.
Sigfús nýtti sér heimild í viðaukasamningi sínum við handknattleiksdeild Fram til að ræða við Valsmenn um félagaskipti. Samkvæmt samningnum hafði hann leyfi til þess á bilinu 20. júní til 20. júlí í sumar.
Í viðaukasamningnum eru ennfremur ákvæði um hámarksfjárhæð sem Fram fái fyrir hann í samningum við erlent smálið sé 5.000 evrur, eða um 450 þúsund krónur, en gæta skuli sanngirni þegar um sé að ræða félagaskipti til innlends liðs eða stórliðs erlendis.
Í framhaldi af því gerðu Valsmenn Frömurum tilboð í Sigfús sem hljóðaði upp á 600 þúsund krónur. Því höfnuðu Framarar, sem og öðru tilboði Valsmanna sem hljóðaði upp á 1.500 þúsund krónur.
Valsmenn hafa í framhaldi af því stefnt Frömurum fyrir dómstól HSÍ sem er með málið til meðferðar þessa dagana. Fyrir dómstólnum liggur m.a. greinargerð frá Sigfúsi sjálfum þar sem hann óskar eftir því að málið verði leyst og hann geti byrjað að spila með Valsmönnum, eins og hugur hans standi til.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.